Blá Vika
Þessi vika er blá vika, sem endar á bláum degi föstudaginn, 12. mars.
Þann dag er vel við hæfi að mæta í Framgallanum og strumpuðum fötum, borða nóg af spínati eins og Stjáni blái eða ganga á höndum eins og Íþróttaálfurinn. en eitt er víst að við í Maríuborg erum sko ekkert blávatn!
Jólaball
Í gær var árlegt jólaball í leikskólanum. Að þessu sinni var jólaballið með breyttu sniði. Börnin skiptust upp í tvo hópa, yngri og eldri. Börn af Þúfu, Laut og Maríustofu hittust í salnum okkar og sungu og dönsuðu í kringum jólatréð og Helga Rún spilaði undir á gítar. Börn af Lundi og Brekku komu síðan í salinn til að syngja og dansa í kringum jólatréð við mikla gleði og kátínu. Að dansi og söng loknum fengu börnin góða heimsókn í garðinn hjá okkur þar sem þeir Bjúgnakrækir og Kertasníkir kíktu til okkar og skemmtu börnunum fyrir utan deildarnar hjá þeim. Þeir fengu hjá okkur kerti og bjúga og voru kátir og glaðir með gjafirnar þegar þeir kvöddu okkur. Við borðuðum síðan jólamat saman í hádeginu með öllu tilheyrandi.
Afmæli leikskólans og fjórði grænfáninn okkar.
18 ára afmæli leikskólans var laugardaginn 14. nóvember og af því tilefni vorum við með afmælishátíð og hattaball á deildum föstudaginn 13. nóvember. Við fengum pylsur í hádegismat og súkkulaðiköku í síðdegishressingunni. En það var fleira skemmtilegt að gerast hjá okkur á föstudaginn vegna þess að við fengum afhentan fjórða grænfánann okkar. Hún Sigurlaug Arnardóttir frá Landvernd kom í heimsókn til okkar og afhenti okkur fánann úti í garði í dásemdar veðri. Helga Rún starfsmaður á Þúfunni frumflutti "Umhverfislag Maríuborgar" af þessu tilefni og börnin sungu hástöfum með. Hérna eru nokkrar myndir sem við tókum af því tilefni.
Appelsínugul vika
Nú er aðlögun að mestu leiti lokið hjá okkur og við viljum bjóða ný börn og foreldra þeirra velkomin í hópinn okkar. Hópastarfið er að hefjast í þessari viku með appelsínugulri viku. Við vinnum með appelsínugula litinn á margvíslegan hátt þessa viku og ljúkum svo vikunni með pompi og prakt á appelsínugulum degi næsta föstudag, 2. október, þar sem við mætum í appelsínugulum fötum í leikskólann.
17 ára afmæli Maríuborgar
14. nóvember er afmæli Maríuborgar og í ár er hún 17 ára! Af því tilefni voru mikil hátíðarhöld í skólanum, við fengum afmælismat og afmælisköku í kaffinu. Birgitta Haukdal kom og las fyrir börnin, ásamt Ljónsa og Láru sem hún skrifar um, og svo að sjálfsögðu var hið hefðbundna hattaball í salnum.
Gosi, sem á heima á skrifstofunni er jafngamall Maríuborg og fékk að venju afmælishatt, en í ár fékk hann einnig ökuskírteini, enda orðinn 17 ára.