Tákn með tali er einfalt táknkerfi sem er notað með töluðu máli. Táknin eru ætluð heyrandi fólki sem á við mál-eða talörðugleika að stríða og byggist á samblandi af látbrigðum, táknum og tali. Eins hefur það sýnt sig að notkun tákna styður mjög vel við og ýtir undir máltöku barna.
Tákn með tali er ólíkt táknmáli að því leiti að táknmál er málkerfi sem telst sem móðurmál þeirra sem eru ekki heyrandi, eða mikið heyrnarskertir. Táknmál kemur þannig í staðinn fyrir talað mál og hefur eins og önnur tungumál málfræðireglur og ákveðinn ramma utan um málið. Tákn með tali er eins og nafnið gefur til kynna aðeins notað með tali, hefur engan sérstakan ramma, eða málfræðireglur aðrar en málið sem það fylgir. Táknin koma ekki í staðinn fyrir mál heldur er eingöngu til stuðnings við mál og til þess hugsað að auðvelda málþróun og máltöku.
Tákn með tali hefur verið kennt í öllum leikskólanum frá haustinu 2010. Þá var skipuð nefnd sem heldur utan um táknnotkun og tekur ákvörðun um hvað við kennum börnunum.
Þegar barn byrjar í leikskólanum fær það ákveðið tákn sem fylgir því allan tímann í skólanum. Þetta tákn er ýmist valið af barninu sjálfu, eða foreldrum og kennurum (eftir aldri). Táknið tengist barninu á einhvern hátt, t.d. uppáhalds dýr, leikfang eða áhugamál. Börnunum finnst almennt táknið sitt jafntengt sér og nafnið sitt og eftir því sem á líður verður táknið þeim mjög kært og finnst þeim gaman að útskýra valið á tákninu.
Starfsmenn eiga líka sitt tákn, sem yfirleitt er mjög lýsandi fyrir starfsmanninn, einhver séreinkenni eða áhugasvið í starfi.
Við höfum sett tákn við marga texta á lögum sem börnin eru að læra, eins notum við táknin í matartímum, samverustundum og í fatastofum.